Berglind Brynjólfsdóttir

Berglind Brynjólfsdóttir

Sálfræðingur
berglind@salstofan.is

Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BA próf í sálfræði við Háskóla Íslands árið 1999 og tók Kandídatspróf frá  Kaupmannahafnarháskóla árið 2003.

Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Ég hef starfað á meðferðarheimili fyrir ungt fólk með geðraskanir, á sambýlum og vinnustöðum fatlaðra.  Að auki vann ég í mörg ár í atferlisþjálfun bæði á heimilum barna og leik- og grunnskólum.

Áður en þú hófst störf á Sálstofunni hvar starfaðir þú? Frá útskrift 2003 starfaði ég sem sálfræðingur hjá Hjallastefnunni, sem er einkarekið fyrirtæki með leik- og grunnskóla.

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Í febrúar 2016.

Hvaða viðbótarmenntunar hefur þú aflað þér frá því að þú varðst sálfræðingur? Ég lauk sérnámi í hugrænni atferlismeðferð vorið 2017 sem er tveggja ára meðferðarnám hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Þar fyrir utan hef ég setið fjölda áhugaverðra námskeiða, vinnustofa og sérhandleiðslu í sértækum verkefnum, s.s. áfallavinnu, hegðunarmótun og meðferðarvinnu einhverfra barna/unglinga.

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Ég sinni leikskólaaldrinum í formi ráðgjafar til foreldra og starfsfólks leikskóla, auk barna á yngri stigum grunnskólans. Börnin eiga það þó til að stækka og verða unglingar og því er að fjölga hratt í þeim aldurshópi einnig.   Verkefnin sem ég hef fengist við felast í alls kyns uppeldisráðgjöf, vanda tengdum fæðuinntöku, þrifaþjálfun, svefni, hegðun/skapi og líðan. Styrkleikar mínir liggja á sviði hegðunar og tilfinningastjórnunar auk þess sem ég hef unnið mikið með börnum á einhverfurófi og fjölskyldum þeirra. Kvíði og tilfinningavandi er jafnframt stór hluti af því sem ég sem fæst við auk þess sem ég hef hlotið þjálfun í áfallavinnu. Þá hef ég haldið fyrirlestra og námskeið um kvíða, einhverfu, ADHD, hegðun, tilfinninga- og reiðistjórnun og skjátíma notkun barna og unglinga.

Hvað varstu hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Ketti!

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Allt sem er gott – svo er það svo mismunandi hvað ég er í stuði fyrir.

Hefurðu farið í fýlu? Ég var svakalega fýldur krakki svo ég tali nú ekki um unglingsárin, en finnst ég ekki vera það í dag – það er kannski nærtækara samt að spyrja fólkið í kringum mann.

Áttu börn? Þrjú börn sem eru fædd með skipulögðum hætti í maí, júní og júlí með 4 ára millibili, 2001, 2005 og 2009.

Áttu gæludýr? Nei og þyki víst eina mamman sem er svo leiðinleg að leyfa það ekki.

Ætlaðir þú alltaf að verða sálfræðingur? Alveg frá því að ég man eftir mér!

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Það er nú bara eins og með matinn og fer eftir stuði. Mér finnst gaman að fara í leikhús, ferðast og kynnast nýrri menningu, liggja á strönd og hlusta á lífið þar, fara út að hlaupa og á skíði.

Hvernig slakar þú á? Með einhvers konar hreyfingu. Ég er týpan sem fæ meiri slökun við að hreyfa mig heldur en t.d. að fara í einhvers konar hugleiðslu eða jóga. Nokkrar ferðir niður góða skíðabrekku eða einn hlaupatúr og þá er ég sultuslök!