Monthly Archives :

January 2016

Stilltu skapið

1000 600 Sálstofan

Námskeið fyrir foreldra barna á aldrinum 5 til 12 ára sem eiga erfitt með að stjórna skapi sínu. Áhersla er á að foreldrar kynnist gagnreyndum aðferðum til að ná tökum á skapi, hegðun og líðan barna sinna. Námskeið fer fram í formi fræðslu, spjalls og verkefnavinnu og æfinga heima á milli tíma.

Sálfræðingar meta með foreldrum hvort börn þeirra mæti í einstaklingsviðtöl.

Námskeiðið er sex skipti, 90 mínútur í senn á mánudögum frá klukkan 16:30 – 18:0.

Öll námskeið eru haldin með fyrirvara um næga þátttöku. Við bendum foreldrum á að mögulega er hægt að sækja um mótframlag til stéttarfélaga. Verð er 60.500 kr fyrir foreldra hvers barns.

 

Klókir krakkar

533 483 Sálstofan

Námskeiðið er ætlað 8-12 ára börnum sem eiga við kvíðavanda að etja og foreldrum þeirra. Börn og foreldrar eru fræddir um eðli kvíða og kenndar aðferðir til að takast smám saman á við kvíðavekjandi aðstæður.

Í upphafi meðferðar fá börn og foreldrar vinnubækur sem eru notaðar í námskeiðinu. Hver tími er með svipuðu móti. Í upphafi hittast foreldrar, börn og meðferðaraðilar, farið er yfir heimaverkefni. Síðan er hópnum skipt upp þar sem börnin fá kennslu í stjórnun kvíðaviðbragða og foreldrar fræðslu. Í lok hvers tíma er svo samverustund þar sem heimavinna er kynnt. Börnunum er kennt að hugsa eins og einkaspæjari þar sem þau finna sannanir fyrir kvíðafullum hugsunum sínum og reyna að læra að hugsa á raunsæjan hátt. Einnig er farið í stigvaxandi berskjöldun þar sem börnin búa til kvíðastiga og mæta óttanum í litlum skrefum. Á seinni hluta námskeiðsins er farið í félagsfærni og ákveðni- þjálfun. Foreldrar fá fræðslu um kvíðaeinkenni, fjallað er um hvernig er að ala upp barn sem glímir við kvíða og farið er yfir hvað börnin eru að læra í hverjum tíma fyrir sig. Í seinni hluta námskeiðsins er fjallað um hvernig á að viðhalda árangri og takast á við bakslag.

Námskeiðið er haldið í samvinnu við Barna– og unglingageðdeild Landspítalans þar sem sambærilegt námskeið hefur verið haldið og gefið góða raun.

Námskeiðið er haldið í húsnæði Sálstofunnar og er í 10 skipti, einu sinni í viku, einn og hálfan tíma í senn. Foreldrar mæta með börnum sínum í öll skiptin. Innifalið í námskeiði er handbók fyrir börn og foreldra.

 

Einnig verður boðað í inntökuviðtal og eftirfylgdarviðtal og er það innifalið í námskeiðsgjaldi.  Námskeiðið kostar kr. 155.000, greiðist með millifærslu, korti (símgreiðslu) eða PEI. Foreldrar geta hugsanlega  nýtt styrki stéttarfélags. Námskeið eru haldin með skilyrði um næga þátttöku.

Þegar skráning berst hefur sálfræðingur Sálstofunnar samband og býður inntökuviðtal þar sem farið er yfir hvort námskeiðið henti eða hvort önnur úrræði henti betur.

Láttu í þér heyra

1000 600 Sálstofan

Námskeið fyrir unglinga með félagskvíða. Unnið er markvisst að því að draga úr kvíða og óöryggi í félagslegum aðstæðum og samskiptum með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.

Námskeiðið fer fram í 8-12 manna hópi unglinga á aldrinum 14 til 18 ára og stendur yfir í 10 vikur. Foreldrar mæta einir í fyrsta tímann en unglingarnir einir í níu tíma. Unnið er eftir meðferðarhandbókinni „Láttu í þér heyra“. Að loknu námskeiði er þátttakendum boðið stutt viðtal ásamt foreldrum þar sem farið er yfir árangur námskeiðs og möguleg næstu skref.

Hægt er að nýta frístundastyrk til Reykjavíkurborgar, hvatastyrk frá Garðabæ og styrk frá Hafnarfjarðarbæ. Foreldrar eru hvattir til að athuga möguleika á styrkjum í öðrum sveitafélögum.

Námskeið eru haldin eftir þörfum.