Klókir krakkar

533 483 Sálstofan

Námskeiðið er ætlað 8-12 ára börnum sem eiga við kvíðavanda að etja og foreldrum þeirra. Börn og foreldrar eru fræddir um eðli kvíða og kenndar aðferðir til að takast smám saman á við kvíðavekjandi aðstæður.

Í upphafi meðferðar fá börn og foreldrar vinnubækur sem eru notaðar í námskeiðinu. Hver tími er með svipuðu móti. Í upphafi hittast foreldrar, börn og meðferðaraðilar, farið er yfir heimaverkefni. Síðan er hópnum skipt upp þar sem börnin fá kennslu í stjórnun kvíðaviðbragða og foreldrar fræðslu. Í lok hvers tíma er svo samverustund þar sem heimavinna er kynnt. Börnunum er kennt að hugsa eins og einkaspæjari þar sem þau finna sannanir fyrir kvíðafullum hugsunum sínum og reyna að læra að hugsa á raunsæjan hátt. Einnig er farið í stigvaxandi berskjöldun þar sem börnin búa til kvíðastiga og mæta óttanum í litlum skrefum. Á seinni hluta námskeiðsins er farið í félagsfærni og ákveðni- þjálfun. Foreldrar fá fræðslu um kvíðaeinkenni, fjallað er um hvernig er að ala upp barn sem glímir við kvíða og farið er yfir hvað börnin eru að læra í hverjum tíma fyrir sig. Í seinni hluta námskeiðsins er fjallað um hvernig á að viðhalda árangri og takast á við bakslag.

Námskeiðið er haldið í samvinnu við Barna– og unglingageðdeild Landspítalans þar sem sambærilegt námskeið hefur verið haldið og gefið góða raun.

Námskeiðið er haldið í húsnæði Sálstofunnar og er í 10 skipti, einu sinni í viku, einn og hálfan tíma í senn. Foreldrar mæta með börnum sínum í öll skiptin. Innifalið í námskeiði er handbók fyrir börn og foreldra.

 

Einnig verður boðað í inntökuviðtal og eftirfylgdarviðtal og er það innifalið í námskeiðsgjaldi.  Námskeiðið kostar kr. 155.000, greiðist með millifærslu, korti (símgreiðslu) eða PEI. Foreldrar geta hugsanlega  nýtt styrki stéttarfélags. Námskeið eru haldin með skilyrði um næga þátttöku.

Þegar skráning berst hefur sálfræðingur Sálstofunnar samband og býður inntökuviðtal þar sem farið er yfir hvort námskeiðið henti eða hvort önnur úrræði henti betur.