Bryndís Þorsteinsdóttir

Bryndís Þorsteinsdóttir

Sálfræðingur

bryndis@salstofan.is

Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BS próf í sálfræði frá Háskóla Íslands vorið 2018 og MS próf í Hagnýtri Sálfræði á kjörsviði Klínískrar Sálfræði vorið 2020.

Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Ég starfaði í mörg ár bæði á dagdeild og hjúkrunarheimili fyrir fólk með Alzheimer og heilabilun. Einnig hef ég unnið sem stuðningsfulltrúi fullorðinna með einhverfu og fjölþættan vanda. Þá vann ég einnig á barnaheimili, leikskóla og sá um hjólreiðanámskeið fyrir börn og unglinga.

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Í júní 2020, tímabundið starf.

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Ég vinn helst með kvíða og depurð barna og unglinga ásamt foreldraráðgjöf. Þá hef ég einnig verið að taka að mér ADHD greiningar. Ég hef aðallega verið að vinna með börnum á grunnskólaaldri.

Hvað varstu hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Ég var mjög hrædd við að synda ein í sjónum, bæði vegna hræðslu við marglyttur og þara. Ég er ennþá í dag smá kvíðin þegar ég fer ein í sjóinn en hræðslan er mun minni í dag heldur en áður.

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Risa rækjur og tacos.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Mér finnst mjög gaman að fara í sund, ferðast og prjóna. Svo elska ég að liggja í leti ef það er sól og gott veður.

Hefurðu farið í fýlu? Að sjálfsögðu hef ég farið í fýlu!

Hvernig slakarðu á? Ég slaka mest á þegar ég fer að synda eða hreyfa mig. Mér finnst líka gott að fara í heitt bað eða heitan pott til þess að slaka á.

Áttu börn? Nei, en það er einn strákur á leiðinni!

Áttu gæludýr? Nei en mig langar alveg rosalega mikið í hund. Mamma og pabbi eiga hund sem heitir Píla. Hún er blanda af íslenskum fjárhund og enskum pointer – mér finnst svo gaman að fá hana í láni og passa hana.

Ætlaðir þú alltaf að verða sálfræðingur? Nei. Þegar ég var lítil ætlaði ég alltaf að verða hárgreiðslukona eða atvinnumaður í hjólreiðum. Svo þegar ég var unglingur þá ætlaði ég annað hvort að verða læknir eða tannlæknir. Síðan rataði ég í sálfræðina eftir tvö ár í háskólanum og það var ekki aftur snúið eftir það!