Elísa Guðnadóttir

Elísa Guðnadóttir

Sálfræðingur
elisa@salstofan.is

Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og Kandídatspróf frá sama skóla vorið 2008.

Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Ég vann á leikskóla í eitt sumar og Stuðlum, meðferðarheimili fyrir unglinga, í eitt ár. Samhliða sálfræðináminu starfaði ég sem stundarkennari við Háskóla Íslands þar sem ég kenndi þroskasálfræði, vinnulag í sálfræði, aðferðarfræði og foreldraþjálfun.

Áður en þú hófst störf á Sálstofunni hvar starfaðir þú? Ég starfaði sem sálfræðingur við leik- og grunnskóla á Þjónustumiðstöð Breiðholts frá útskrift til ársins 2017. Samhliða starfi mínu í Breiðholti hélt ég námskeið fyrir leik- og grunnskólastarfsfólk um hegðunarmótun og kvíða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, Símenntun Háskólans á Akureyri og við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ég var einnig í hlutavinnu í um eitt ár á stofu.

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Í janúar 2017.

Hvaða viðbótarmenntunar hefur þú aflað þér frá því að þú varðst sálfræðingur? Frá því ég útskrifaðist 2008 hef ég verið dugleg við að sækja ýmis námskeið og ráðstefnur, svo sem réttindanámskeið í PEERS, sem er félagsfærninámskeið fyrir börn, unglinga og ungmenni á einhverfurófi, réttindanámskeið til að leggja fyrir ýmis matstæki, halda námskeið eins og Klókir litlir krakkar, SOS! Hjálp fyrir foreldra, námskeið um svefnvanda og matartengdan vanda og ótal námskeið og vinnustofur tengd kvíða og hegðunarmótun. Vorið 2019 útskrifaðist ég svo úr Sérnámi í hugrænni atferlismeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Ég sinni helst ráðgjöf til foreldra leikskólabarna og yngri grunnskólabarna sem og fjölburaforeldra og einstaklingsmeðferð barna 12 ára og yngri vegna ýmiskonar vanda, s.s. hegðunarvanda, erfiðleika með tilfinningastjórn, samskiptavanda, svefnerfiðleika og kvíðavanda af ýmsu tagi. Auk þess veiti ég börnum og unglingum sem glíma við svefnerfiðleika, áráttu- og þráhyggjuröskun og ofsakvíða einstaklingsmeðferð. Helstu umfjöllunarefni mín á námskeiðum og í fræðslu eru svefn, samskipti, færniþjálfun, hegðunarvandi, mótþrói, streitustjórnun og kvíði.

Hvað varstu hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Þegar ég var barn óttaðist ég ýmislegt, svo sem að gera mistök, vera skömmuð, standa mig illa á prófum, að vera ein heima og að foreldrar mínir færu frá mér.

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Grillaður silungur og sætkartöfluskífur.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Fara í sumarbústað, lesa góða bók, verja tíma með fjölskyldunni minni, hreyfa mig og fara í sund.

Hefurðu farið í fýlu? Já svo sannarlega, allavega 1000 sinnum, ef ekki oftar.

Hvernig slakarðu á? Fer í sund, les spennubækur og hreyfi mig.

Áttu börn? Ég á fimm börn, strák fæddan árið 2000, annan strák árið 2008, tvíburastelpur fæddar árið 2014 og stelpu sem er fædd 2020.

Áttu gæludýr? Nei. Ég á hinsvegar vatnsbrúsa sem fer með mér allt sem ég fer og fjölskyldumeðlimir skilgreina sem gæludýrið mitt.

Ætlaðir þú alltaf að verða sálfræðingur? Nei, búðarkona, flugfreyja og sjúkraliði eins og mamma. Rétt fyrir útskrift úr framhaldsskóla ætlaði ég að verða hjúkrunarfræðingur en tók svo U-beygju og skráði mig í sálfræði í háskólanum.