Hrund Þrándardóttir

Hrund Þrándardóttur

Sálfræðingur
hrund@salstofan.is

Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BA gráðu í sálfræði frá sálfræðideild Háskóla Íslands í febrúar 1997 og með Kandídatspróf frá sömu deild vorið 2003.

Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Ég vann á Vistheimili barna, á sambýli fyrir fólk með einhverfu og með unglingum í vinnuskólanum.

Áður en þú hófst störf á Sálstofunni, hvar starfaðir þú? Ég hóf störf sem sálfræðingur á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur í ágúst 2003 og vann þar í tvö ár og fluttist þá yfir í Þjónustumiðstöð Breiðholts þar sem ég vann til ársins 2013 við sérfræðiþjónustu skóla. Ég var stundakennari í MA námi náms- og starfsráðgjafa HÍ í alls þrjár annir. Ég kom á fót og hafði í nokkur ár umsjón með sumarbúðum fyrir stelpur með ADHD og skyldar raskanir. Ég kom að kennslu í meðferðarmenntun og grunnnámi í PMT-O foreldrafærni.  Að lokum sat ég í stjórn Sálfræðingafélags Íslands frá árinu 2010. Var fyrst meðstjórnandi, síðan gjaldkeri í tvö ár og loks formaður félagsins frá 2013 til 2019.

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Við stofnun Sálstofunnar árið 2010 en í fullu starfi frá árinu 2013.

Hvaða viðbótarmenntunar hefur þú aflað þér frá því að þú varðst sálfræðingur? Ég lauk sérfræðinámi í PMT-O foreldrafærni árið 2008. Þar fyrir utan hef ég sótt fjöldann allan af ráðstefnum og námskeiðum sem tengjast greiningu og meðferð ADHD, kvíða, hegðunarvanda,  reiðivanda og jákvæðum stuðningi við hegðun í skólum svo eitthvað sé nefnt. Hef hlotið sérþjálfun í EMDR meðferð.

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Ég vinn mikið með hegðun, skapstjórnun, ADHD, bæði með börnum og unglingum og svo með ráðgjöf til foreldra. Vinn m.a. líka með kvíða, flughræðslu, áföll og með börnum sem eru ættleidd og foreldrum þeirra. Hef töluvert sinnt fræðslu til foreldra og starfsfólks skóla m.a. um samskipti í fjölskyldum, hegðun, ADHD og kvíða.

Hvað varstu hrædd við sem barn og unglingur? Ég var hrædd við að koma fram og halda kynningar. Ég var líka hrædd við hrossaflugur, slöngur,  leðurblökur, kolkrabba og drauga.

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Það er svo margt! Til dæmis kjötbollur, fiskbollur, sushi, indverskur, tælenskur og grjónagrautur.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Fara á hestbak, föndra eitthvað, vera með fjölskyldu og vinum, ferðast, borða góðan mat og sjá eitthvað nýtt.

Hefurðu farið í fýlu? Já!

Hvernig slakarðu á? Með því að föndra eitthvað, prjóna, horfa á sjónvarp og fara í göngutúr.

Áttu einhver börn? Ég á tvo stráka, sá eldri er fæddur árið 2000 og sá yngri árið 2007.

Áttu gæludýr? Já, Oreo sem er svartur dvergschnauzer. Svo á ég kindurnar Uglu og Sölku og hestinn Námu.

Langaði þig alltaf að verða sálfræðingur? Nei alls ekki! Mig langaði að verða kennari, flugfreyja, fornleifafræðingur og dýralæknir. Þegar ég byrjaði í háskólanámi ákvað ég að prófa sálfræðina og heillaðist strax af henni.