Íris Ósk Ólafsdóttir

Íris Ósk Ólafsdóttir

Sálfræðingur
iris@salstofan.is

Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BA gráðu í sálfræðið frá Háskóla Íslands árið 2006 og með Kandídatspróf frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2009.

Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Já, ég vann talsvert af störfum sem tengdust sálfræðinni. Ég vann á tveimur leikskólum og sinnti atferlisþjálfun. Ég vann einnig á frístundaheimili í eitt ár meðfram námi og tvö sumur á sambýli.

Áður en þú hófst störf á Sálstofunni hvar starfaðir þú?  Eftir útskrift hóf ég störf sem sálfræðingur á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis og síðan árið 2013 á Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Í tæpt ár starfaði ég sem sálfræðingur á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Í september 2021.

Hvaða viðbótarmenntunar hefur þú aflað þér frá því að þú varðst sálfræðingur? Frá því að ég útskrifaðist hef ég sótt mörg námskeið og ráðstefnur. Námskeiðin hafa sem dæmi verið um tilfinningavanda barna, hegðunarráðgjöf, námskeið í að leggja fyrir ýmis matstæki og kennsluréttindanámskeið, en ég hef sem dæmi haldið námskeiðin Klókir krakkar, Klókir litlir krakkar og námskeiðið Mér líður eins og ég hugsa sem er fyrir unglinga með tilfinningavanda. Vorið 2021 lauk ég svo tveggja ára sérnámi í hugrænni atferlismeðferð hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Ég sinni viðtalsmeðferð fyrir börn og unglinga með tilfinningavanda og ráðgjöf til foreldra vegna hegðunarvanda. Ásamt því sinni ég einnig greiningum vegna gruns um ADHD og röskun á einhverfurófi.

Hvað varstu mest hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Ég var mjög hrædd við að sofa ein frá um 10 – 12 ára aldri. Þegar ég var á unglingsaldri óttaðist ég að gera mistök og að gera mig að fífli fyrir framan aðra.

Hver er uppáhalds maturinn þinn? ÍHrikalega erfið spurning. Það er mjög breytilegt en ég hef mjög gaman af því að elda og borða góðan mat. Indverskur matur, mesíkanskur matur, ýmiskonar grænmetisrétir og súpur eru ofarlega á listanum.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Að vera með fjölskyldunni minni. Stunda útivist eins og að fara á skíði, út að hlaupa og í fjallgöngur. Svo finnst mér gaman að elda nýja rétti og hafa það kósý heima.

Hefurðu farið í fýlu? Já, klárlega. En það gerist samt ekki oft.

Hvernig slakarðu á? Með því að hreyfa mig og horfa á einhverja skemmtilega þætti/bíómynd. Einnig finnst mér mikil slökun í því að fara í ferðalög og geta kúplað mig út.

Áttu börn? Já, ég á tvö börn. Strák sem er fæddur 2011 og stelpu sem er fædd 2014.

Áttu gæludýr? Já, við fjölskyldan eigum þrjá naggrísi sem heita Bella, Kata og Mylla.

Ætlaðir þú alltaf að verða sálfræðingur? Nei, nefnilega ekki. Ég byrjaði í lögfræði en fannst lesefnið óáhugavert og fann mig ekki þar. Ég ákvað að prófa sálfræði og fann strax að það var efni sem vakti hjá mér gífurlegan áhuga.