Margrét Birna Þórarinsdóttir

Margrét Birna Þórarinsdóttir

Sálfræðingur
margretbirna@salstofan.is

Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BA próf í sálfræði frá California State University, Northridgeárið árið 1998 og með Kandídatspróf frá Háskóla Íslands vorið 2001.

Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Ég vann í skóla einn vetur, kom inn í forfallakennslu og var stuðningur við nemendur. Ég vann samhliða á stuðningsheimil fyrir börn. Þegar ég var í háskólanámi vann ég við að þjónusta fólk með námsvanda, það er með skemmtilegri störfum sem ég hef sinnt.

Áður en þú hófst störf á Sálstofunni hvar starfaðir þú? Fyrsta starfið mitt sem sálfræðingur var við sérfræðiþjónustu skóla á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og þaðan fór ég á Þjónustumiðstöð Breiðholts. Ég starfaði einnig sem stundakennari við Háskóla Íslands við Náms-og starfsráðgjöf.

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Við stofnun Sálstofunnar árið 2010 en í fullu starfi frá árinu 2013.

Hvaða viðbótarmenntunar hefur þú aflað þér frá því að þú varðst sálfræðingur? Ég útskrifaðist úr tveggja ára meðferðarnámi, Sérnámi í hugrænni atferlismeðferð, frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2008 og hef starfað sem kennslustjóri yfir því námi frá 2015. Frá því ég útskrifaðist hef ég verið áhugasöm um að halda áfram að læra, starfið mitt er sem betur fer mitt helst áhugamál. dugleg við að sækja ýmis námskeið og ráðstefnur, svo sem réttindanámskeið í áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð fyrir börn. Ég er með réttindi til að kenna ýmis námskeið svo sem SOS! Klókir krakkar, klókir krakkar á einhverfurófi og Snillingar. Ég hef meðferðarréttindi í áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð fyrir börn og réttindi til að vinna með fjölskyldum þar sem átök rifrildi og stjórnleysi hafa markað fjölskyldumeðlimi. Ég er einnig með réttindi til að beita EMDR áfallameðferð.

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Ég tek að mér margvísleg verkefni en áhugasviðið mitt er fjölbreytt. Frá því ég hóf störf á Sálstofunni hef ég einna helst á lagt áherslu á að vinna með kvíða og depurð barna og unglinga. Undanfarið hef ég í auknu mæli unnið með álag og erfiða lífsreynslu barna. Ég hef unnið talsvert með áföll barna og vinn með fjölskyldum sem mæta erfiðum áskorunum. Ég hef verið í samstarfi við kvennaathvarfið og vinn talsvert með barnavernd. Ég hef mikinn áhuga á að vinna með fósturforeldrum og fósturbörnum, ég er sjálf með réttindi sem fósturforeldri. Að sama skapi hef ég unnið með ættleiddum börnum og foreldrum þeirra. Ég hef einnig unnið með börnum með fatlanir og langvinna sjúkdóma. Ég hef haldið fjölda fyrirlestra og finnst mikilvægt að miðla þekkingu sem ég hef aflað mér. Áhersla mín í fyrirlestrahaldi undanfarið er skólaforðun, samkennd, tengslamyndun og þunglyndi unglinga.

Hvað varstu hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Þegar ég var unglingur var ég mjög hrædd um að aðrir væru að dæma mig og að verða fyrir höfnun. Ég vissi ekkert verra en að þurfa að tala fyrir framan aðra eða halda fyrirlestur. Ég var mjög myrkfælin sem barn og alveg fram á fullorðinsár.

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Mér finnst gamaldags matur mjög góður t.d. slátur, harðfiskur, hákarl og allavega fiskur. En mér finnst líka gaman að elda og prófa mat frá framandi menningu.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Borða ís, mér finnst það æði. Mér finnst rosa gaman að spjalla og kynnast fólki. Ég hef gaman af því að horfa á fræðsluþætti og synda í sjó. Skemmtilegast þykir mér samt að vera með ættingjum og vinum mínum.

Hefurðu farið í fýlu? Já, ég gat verið voða fýlumús þegar ég var yngri en sem betur fer hefur það lagast með aldrinum og ég fer sjaldnar í fýlu núorðið.

Hvernig slakarðu á? Mér finnst best að brasa í garðinum, elda, hlusta á áhugaverðar hljóðbækur og að lesa. Það sem mér finnst mest slakandi er að vera í tengslum, til dæmis tengslum við náttúru, börn og dýr.

Áttu börn? Ég á þrjú börn, elsta er fædd árið 1992, strákur árið 2008 og stelpa árið 2013.

Áttu gæludýr? Ég á súperköttin Runólf Melsted.

Ætlaðir þú alltaf að verða sálfræðingur? Það var mismunandi. Mig langaði alltaf að vinna með börnum og þegar ég var yngri man ég eftir að hugsa að mig langaði að verða sálfræðingur til að hjálpa börnum sem eiga erfitt. En svo langaði mig líka að verða leikstjóri, ljósmyndari og blaðamaður.