Svala Birgisdóttir

Svala Birgisdóttir

Ritari
ritari@salstofan.is

Hvar lærðir þú að vera ritari? Ég fór í skrifstofunám hjá Promennt 2018 og kláraði það 2019. Áður fyrr var ég í Fjölbrautaskólanum við Ármúla á málabraut en fann mig ekki alveg í því námi og skipti yfir í grafíska miðlun í Tækniskólanum. Það nám átti mun betur við mig og hefur nýst mér vel í starfi, en ég hef líka tekið allskyns námskeið í tengslum við vefsíðugerð, myndvinnslu og stafræna markaðssetningu. 

Áður en þú hófst störf á Sálstofunni hvar starfaðir þú? Ég starfaði hjá Íslandspósti, ÁTVR og Fallhífastökksfélaginu Frjálsu Falli. Einnig hef ég starfað við umönnun aldraðra og á leikskóla ásamt því að taka að mér ýmis verkefni við prófarkalestur, vefsíðugerð og hönnun markaðsefnis fyrir lítil fyrirtæki. Þar ber helst að nefna hönnun nafnspjalda og auglýsingabæklinga. 

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Í febrúar 2019.  

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Ég sé um tímabókanir, móttöku, símsvörun, reikninga, skipulag og ýmislegt annað sem til fellur en starfið er ansi fjölbreytt og skemmtilegt. 

Hvað varstu hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Ég var mjög hrædd við gröfur og aðrar stórar vinnuvélar, líka ryksugur.

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Allt sem amma mín eldar, hún eldar besta mat í heimi.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Verja tíma með syninum og fjölskyldunni, ferðast innanlands sem utan, fara á skíði og línuskauta og stökkva úr flugvélum og þyrlum.

Hefurðu farið í fýlu? Já auðvitað, það hafa allir gert, en ég held slíku í lágmarki enda ekkert gaman að vera í fýlu!

Hvernig slakarðu á? Að slaka á er ekki alveg mín sterkasta hlið satt best að segja, það er eiginlega bara þegar ég er lasin sem ég næ að slaka almennilega á og horfa á sjónvarp til dæmis. Annars er ég alltaf að brasa eitthvað og gef mér ekki tíma til að taka því rólega. 

Áttu börn? Ég á einn strák sem er fæddur árið 2017. 

Áttu gæludýr? Nei en ég elska ketti og væri alveg til í að eiga einn slíkan! Ég þoli hins vegar ekki að hafa hár úti um allt, sem er ástæða þess að ég á ekki kött. 

Langaði þig alltaf að verða ritari? Mig langaði að verða búðarkona, flugfreyja og kafari þegar ég var lítil.