Hrafnkatla Agnarsdóttir
Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BS í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2018 og var lokaverkefni mitt um berskjöldun í meðferð við kvíða barna. Árið 2020 útskrifaðist ég úr meistaranámi í klínískri sálfræði hjá Háskóla Íslands en þar fór ég í starfsnám hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni og Sálfræðiráðgjöf Háskólanema. Meistaraverkefni mitt byggði á gagnasöfnun á greiningarviðtalinu K-SADS og tók því greiningar hjá Barna-og unglingageðdeild og Litlu Kvíðameðferðarstöðinni. Þá skoðaði ég sérstaklega samanburð á matsmannaáreiðanleika greininga fyrir börn og unglinga með og án ADHD.
Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Ég vann sem atferlisþjálfi á leikskóla og félagsliði á íbúðarkjarna fyrir geðfatlaða.
Áður en þú hófst störf á Sálstofunni hvar starfaðir þú? Ég starfaði sem sálfræðingur á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans til ársins 2022, fyrst í greiningar- og meðferðarteymi og síðar í átröskunarteymi. Árið 2021 fór ég að vinna sjálfstætt á Sálfræðistofunni Höfðabakka og árið 2022 byrjaði ég í hlutastarfi hjá Nemendaráðgjöf Háskóla Íslands. Þá hef ég verið meðleiðbeinandi fyrir lokaverkefni meistaranema 2021-2022.
Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? September 2024.
Hvaða viðbótarmenntunar hefur þú aflað þér frá því að þú varðst sálfræðingur? Ég hef verið dugleg að sækja ráðstefnur, sálfræðiþing, vinnustofur og fræðsluerindi, bæði hérlendis og erlendis. Tók Siðareglunámskeið SÍ árið 2023 og frá 2021 sótt mér mikla handleiðslu í átröskunum.
Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni? Átraskanir fyrst og fremst en hef einnig mjög gaman af því að vinna með tilfinningavanda líkt og kvíða og þunglyndi.
Hvað varstu hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Ég hef alltaf verið mjög hrædd við sjóinn og er ekkert sérstaklega hrifin af skordýrum.
Hver er uppáhalds maturinn þinn? Flestir pastaréttir, indverskur matur og ramen.
Hefurðu farið í fýlu? Já, ég fór alveg í fýlu þegar ég var yngri. Kemur sjaldnar fyrir í dag og stendur þá yfirleitt ekki lengi við.
Áttu börn? Nei, en bý svo vel að hafa alltaf verið umkringd börnum í fjölskyldunni og tók hlutverki mínu sem stóru systur tveggja yndislegra bræðra minna alltaf mjög alvarlega. Guðsynir mínir tveir eiga líka stóran part í mínu lífi.
Áttu gæludýr? Nei, en það er svo sannarlega á stefnuskránni.
Ætlaðir þú alltaf að verða sálfræðingur? Nei, ekki fyrr en ég sat í tíma í klínískri barnasálfræði á síðustu önninni minni í BS náminu sem áhuginn minn kviknaði og þá var ekki aftur snúið.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Ég ferðast frekar mikið og fór t.d. ein míns liðs til Suður-Ameríku þegar ég var tvítug og nýtti mér ýmis fríðindi þegar vann sem flugliði. Er mjög félagslynd og verð yfirleitt að hafa einhvern skipulagðan hitting framundan með vinum og eyði miklum tíma með fjölskyldunni minni. Ég dansaði ballett og nútímadans í 17ár svo hef mjög gaman af dansi þó ég stundi það lítið í dag. Ég syng mikið í bílnum og heima, nágrönnum mínum til ama og hef alltof gaman af karaoke.
Hvernig slakar þú á? Er yfirleitt með einhverja tónlist í gangi, hlusta á podköst, fer í sund, les bækur, hef gaman af hlaupum og crossfit.