Unnur Rún Sveinsdóttir

Unnur Rún Sveinsdóttir

Sálfræðingur
unnur@salstofan.is

Hvar lærðir þú sálfræði? Ég útskrifaðist með BS próf í sálfræði frá Háskóla Íslands í febrúar 2018 og er að útskrifast með masterspróf í klínískri sálfræði frá sama skóla núna í júní, 2021. Í BS náminu tók ég eitt ár í skiptinámi við Háskólann í Kaupmannahöfn. 

 

Áður en þú varðst sálfræðingur fékkstu við einhver störf sem tengdust sálfræðinni? Ekki beint en ég hef samt unnið mjög mikið með börnum og unglingum. Í mörg ár hef ég unnið í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum á vegum KFUM og KFUK auk þess að sjá um vetrarstarf með barna- og unglingahópum á vegum kirkjunnar og KFUM og KFUK. Auk þess vann ég um tíma í Borgarleikhúsinu og sá þar að hluta til um barnahópinn sem kom að sýningunni Billy Elliot. Ég hef því ekki beint unnið í klínískum störfum tengdum sálfræði en hef heldur betur kynnst fjölbreyttri flóru af börnum og unglingum í gegnum mín störf. 

 

Áður en þú hófst störf á Sálstofunni hvar starfaðir þú? Starfið á Sálstofunni er mitt fyrsta starf sem sálfræðingur eftir útskrift. 

 

Hvenær byrjaðir þú að vinna á Sálstofunni? Í maí 2021. Haustið 2020 var ég þó í starfsnámi á Sálstofunni og fékk þá að kynnast starfinu nokkuð vel og prófa mig áfram í þessu hlutverki. 

 

Hvaða viðbótarmenntunar hefur þú aflað þér frá því að þú varðst sálfræðingur? Samhliða náminu sat ég leiðbeinendanámskeið sem veitir réttindi til að halda námskeiðið SOS! Hjálp fyrir foreldra.

 

Hvaða verkefni tekur þú helst að þér á Sálstofunni?Til að byrja með mun ég mest sinna ADHD greiningum á börnum og unglingum. Auk þess mun ég taka að mér einstaklingsmeðferð barna á grunnskólaaldri og hegðunarráðgjöf fyrir foreldra. 

 

Hvað varstu mest hrædd við þegar þú varst barn og unglingur? Ég man eftir því að hafa oft verið hrædd við myrkrið. Auk þess var ég smeyk við mörg dýr og illa við skordýr. Ég er líka frekar lofthrædd og missi oft jafnvægið þegar ég er hátt uppi. 

 

Hver er uppáhalds maturinn þinn? Vá þetta er erfið spurning! Mér finnst margur matur svo góður og það fer alveg eftir því í hvernig skapi ég er. Ég elska humar og sushi til spari en er líka algjör pasta og pizzu kona. Svo er ég líka algjör sælkeri og elska kökur og ís.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Ég elska að ferðast, bæði innanlands og til útlanda! Ég elska líka að hitta vini mína og fjölskyldu, spila, dansa, syngja og njóta náttúrunnar í útilegum og fjallgöngum. Ég er algjör félagsvera og nýt þess að gera eitthvað skemmtilegt með góðu fólki!

 

Hefurðu farið í fýlu? Jájá, hafa það ekki allir? Sem betur fer gerist það nú ekkert rosalega oft, eiginlega bara mjög sjaldan. Ég reyni að taka lífinu ekki af of mikilli alvöru og er yfirleitt með mikið jafnaðargeð.

 

Hvernig slakarðu á? Með því að fara út að labba, hitta vini eða fjölskyldu, lesa og horfa á sjónvarpið. Mér finnst líka mjög gaman og róandi að prjóna og hekla, þá sekkur maður sér alveg ofan í það og getur gleymt stressinu í kringum sig. 

 

Áttu börn? Nei ég á engin börn sjálf en er mjög rík af börnum í kringum mig!

 

Áttu gæludýr? Nei, ég á engin dýr og er satt að segja mjög lítil dýrakona. 

 

Ætlaðir þú alltaf að verða sálfræðingur?Nei reyndar ekki. Ég ætlaði að verða leikkona, flugfreyja, hárgreiðslukona, fatahönnuður/klæðskeri, fótboltakona og ég veit ekki hvað og hvað. Í lok menntaskóla fór svo aðeins að blunda í mér hugmyndin um sálfræði. Í menntaskólanum mínum var ekki boðið upp á neina sálfræðiáfanga svo ég vissi í rauninni mjög lítið hvað fólst í sálfræði, mér fannst hún bara hljóma spennandi. Ég fór því á kynningarfund bæði hjá Sálfræðideild og Viðskiptafræðideild hjá Háskóla Íslands og allt fram á síðasta sunnudagskvöld áður en skólinn byrjaði var ég að reyna að ákveða hvort ég ætti að mæta í sálfræðitíma eða viðskiptafræðitíma. Ég ákvað að mæta í einn sálfræðitíma til að sjá hvað mér fyndist og sá sko ekki eftir því! Strax í fyrsta tímanum var þetta algjörlega selt!